Á þessum námsvef eru nokkur verkefni þar sem fjallað er um aðferðir til að efla skapandi hugsun í náttúrunni, leikni í þróun hugmynda og hæfni til að koma þeim á framfæri. Nemendur nota skissubókina við að skrásetja hugmyndir og þróa þær í gegnum til dæmis ljósmyndir og tilraunir með vatnsliti, náttúrulegan og endurnýttan efnivið. Í námsefninu er lögð áhersla á að nemandi auki þekkingu og skilning á umhverfi sínu með því að upplifa í náttúrunni, taka myndir og skrásetja. Lögð er áhersla á að skoða margvíslegar útfærsluleiðir og hvernig hægt er að skapa nýtt með því að endurnýta og endurvinna.
Kveikjur
Kveikjur gegna mikilvægu hlutverki í námsefninu og má þar til dæmis nefna verk Andy Goldsworthy sem er þekktur fyrir náttúruverk sín þar sem hann vinnur í nánum tenglum við umhverfið. Mögnuð verk Andy Goldsworthy hvetja nemendur til sköpunar og örva ímyndunarafl þeirra og sýnir hvernig hægt er að búa til list og tjá sig með náttúrulegum efnivið svo sem laufum, trjágreinum, snjó og ísklumpum. Verk hans eru oftast hverful og samlagast náttúrunni. Norihiko Terayama notar einnig náttúrulegan efnivið í verk sín þar sem hann teflir saman lífrænu og geometrísku formi á mjög áhugaverðan hátt. Ég tengi einnig verk Paul Klee við verkefnið okkar, þann hluta er við búum til litaprufur. Norihiko Terayama notar náttúrulegan efnivið í verk sín þar sem hann teflir saman lífrænu og geometrísku formi á mjög áhugaverðan hátt. Eygló Harðardóttir bendir á í grein sinni „Hollur er heimafenginn baggi“ og fjallar um grenndarkennslu og umhverfistúlkun sem leið í umhverfisvitund nemenda. Þar er lögð áhersla á að efla umhverfisvitund nemenda og kynna fyrir þeim fegurðina í náttúrunni. Umhverfistúlkun hefur það að markmiði að miðla þekkingu um fyrirbrigði náttúrunnar og efla skynjun okkar og tilfinningar fyrir umhverfinu, skilningurinn leiðir það af sér að við förum að bera aukna virðingu fyrir lífríkinu (Eygló Harðardóttir, 2005). Ég lít svo á að kennarinn þurfi að vera vakandi fyrir þeim áhuga sem nemendur sýna umhverfi sínu, að spurningar og athugasemdir frá nemendum geti verið uppspretta samræðna um lífríkið. Ég tel mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að deila upplifun sinni með samræðum eða í gegnum listsköpun. Að deila reynslu sinni og upplifun færir okkur nær hvert öðru og skapar jákvætt andrúmsloft.
Rökstuðningur
Grunnþættir menntunar snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það (Mennta- og menningaráðuneytið, 2011, bls.14). Þetta verkefni snertir á nokkrum grunnþáttum.
Læsi:
Í námsefninu læra nemendur að lesa í náttúruna og veita henni athygli. Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á (Mennta- og menningarmálaáðuneytið, 2011, bls.19).
Sjá rit um læsi: https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/laesi/
Sköpun:
Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun er að sjá fyrir það óorðna og framkvæma það. Sköpun byggist á forvitni, áskorun, spennu og leit. Glíman við viðfangsefnið og það að finna lausn getur verið umbun sköpunarinnar í sjálfu sér. Sköpun brýtur hefðbundin mynstur, reglur og kerfi og veitir nýja sýn á fyrirbæri og viðteknar hugmyndir. Sköpun byggist á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls.24).
Sjá rit um sköpun: https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/skopun/
Sjálfbærni:
Umhverfið og þar með náttúran umlykja allt mannlegt samfélag. Sjálfbær þróun getur ekki átt sér stað nema innan þeirra takmarka sem vistkerfi jarðar setja okkur. Því er skilningur á þeim takmörkum, ásamt ferlum, lögmálum og hringrásum í náttúrunni, mikilvægur grundvöllur þess að okkur takist að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þannig þurfa nemendur að þekkja, skilja og virða náttúruna, bæði vegna sjálfgildis hennar og þeirrar þjónustu sem hún innir af hendi við mannfólkið (Mennta- og menningarmálaáðuneytið, 2011, bls.20).
Sjá rit um sjálfbærni: https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/sjalfbaerni/
Ég tel að með því einu að fá nemendur til að veita náttúrunni athygli “litum trjánna og hvernig þeir breytast” verði þeir meðvitaðri um umhverfið og mikilvægi þess að við berum virðingu fyrir jörðinni og lífríkinu. Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera nemendum hæfari til að takast á við viðfangsefni er lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Í námsefni því er fylgir þessari rannsókn er áhersla lögð á verekefni er tengja nemendur við umhverfi og náttúru og efla virðingu þeirra fyrir jörðinni.
Mér þykir alltaf betra að vinna verkefnin sjálf áður en ég legg þau fyrir nemendur. Þá kvikna nýjar hugmyndir og eitthvað vinnsluferli fer af stað og undirmeðvitundin eins og vinnur með manni. Þegar ég vann námsefnið um haustið tók ég sérstaklega eftir því hversu vel ég tók eftir litum í náttúrunni og hvernig lauf trjánna breyttust dag frá degi, ég varð mun meðvitaðri um umhverfi mitt á meðan á verkefninu stóð og líka á eftir. Verkefnið skilaði mér aukinni meðvitund gagnvart umhverfi mínu. Kjarni þess verkefnis byggir á námskenningum um útinám og reynslunám. Í bókinni: ,,The Arts and the creation of mind" fjallar Elliot W. Eisner (2002) um hlutverk lista og um nauðsyn þess að einstaklingurinn þroskist af reynslu með hjálp skynfæranna. Hann telur að listgreinar geti hjálpað nemendum að skynja heiminn með öllum skynfærum. Eisner telur að nemandinn þroski dómgreind sína í gegnum listir, þar sem listir fela ekki í sér ákveðin svör verður nemandinn að byggja á eigin mati. Hann telur einnig að nemendur uppgötvi í gegnum listir að margar lausnir geti verið á sama vandamálinu og spurningar geta haft fleiri en eitt rétt svar. Þannig telur Eisner að þekkingarleit í gegnum listir feli í sér sveigjanleika og fjölbreyttar leiðir sem leiða til rannsókna og óvæntra útkoma. Þá telur hann að listir hjálpi okkur í samskiptum og að deila menningu (Eisner, 2002, bls. 1-3).