Skapandi skólastarf og samþætting námsgreina
Í heftinu Sköpun er bent á margvíslegar leiðir sem hægt er að fara í skapandi skólastarfi. Eftirfarandi eru nokkrar þeirra: Stuðst er við fjölbreyttar kennsluaðferðir og vinnubrögð og hvatt til samstarfs milli greina, aldurshópa og jafnvel skólastiga. Nemendur fá tækifæri til að hafa áhrif á skólastarfið og ýtt er undir forvitni og heilabrot. Þekkingarleit og sköpunarferli eru ekki síður mikilvæg en svör og niðurstöður. Nemendur eru hvattir til að gera margvíslegar tilraunir. Litið er á mistök sem tækifæri til að læra af reynslu. Nýir miðlar og ný tækni eru nýtt á áhugaverðan og skapandi hátt. Bent er á mikilvægi þess að verk nemenda séu sýnileg og geti orðið öðrum nemendum og kennurum innblástur og hvatning og að nemendur fái tækifæri til að vinna með fjölbreytilegan efnivið og eiga val um ólíkar leiðir til að vinna úr hugmyndum sínum. Þess er auk þess getið að skólinn eigi ekki að vera bundinn innan fjögurra veggja – í náttúrulegt umhverfi, söfn og menningarstofnanir, verkstæði og atvinnufyrirtæki má sækja fróðleik, hugmyndir og innblástur í tengslum við ýmis viðfangsefni. Lögð er áhersla á vettvangsheimsóknir og útinám (Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Ingibjörg Jóhannsdóttir, Torfi Hjartarson, 2012, bls. 7).Elliot Eisner talar um að ekki sé hægt að kenna sköpunarmátt, en það megi svo sannarlega skapa aðstæður fyrir marga grundvallarþætti listarinnar til að þroskast, svo sem að fínstilla heilbrigða skynsemi, öðlast sjálfstraust í verktækni, koma auga á samhengi og öðlast skilning á list sem sögulegu og menningarlegu ferli og afurð (Eisner, 1998).Hvernig getur þekkingarleit orðið skapandi ferli?
Sem kennari þarf ég að vera vakandi fyrir því að skapa andrúmsloft sem styður við sköpunarkraft í kennslu og námi. Ég þarf að hafa vilja og getu til að virða persónulega nálgun nemanda á viðfangsefninu og þá leið sem hann kýs að fara. Kennslan er „ferðalag með nemendum“ og markmið mitt er að uppgötva og þroskast með nemendum mínum, að vaxa í gegnum skapandi ferli, að vera þátttakandi í náms- og sköpunarferli með nemendum; grípa hugmyndir og gera úr þeim spennandi viðfangsefni. Það er mun skemmtilegra að vera kennari þegar hið óvænta fær pláss í daglegri rútínu.