HeimspekiEf kennarinn vill gera réttmætar kröfur til nemenda sinna verður hann að þekkja þá og vita hvar þeir eru staddir námslega og félagslega. Ég tel því mikilvægt að nýta aðferðir heimspekinnar til samræðna og til að skiptast á hugmyndum og láta í ljós viðhorf til mismunandi málefna. Ég tel að nemendur hefðu gagn af því að kynnast heimspekilegum samræðum og þeim reglum sem þar gilda. Í tveimur af námsverkefnunum kemur heimspeki við sögu og gegnir þar mikilvægu hlutverki. Jóhann Björnsson segir í formála bókar sinnar, 68 heimspekiæfingar, að heimspekina megi vissulega stunda eða kenna sem sjálfstætt fag en þar sem hún sé ekki síður sjónarhorn og aðferð við að nálgast hin ýmsu viðfangsefni væri það ekki síðra ef hún gæti orðið í ríkari mæli samofin öðrum námsgreinum. Hann segir að í öllum námsgreinum megi spyrja og rökræða heimspekilega og til þess þurfi maður ekki að vera með háskólapróf í heimspeki; að spyrja heimspekilega sé eitthvað sem börnum sé eiginlegt og hæfileiki sem leggja ætti rækt við svo börn fari ekki á mis við dýrmæt tækifæri til að þroska hugsun sína. Jóhann segir að það sé okkar sem störfum í skólum og komum að uppeldi ungs fólks að sjá til þess að það kynnist heimspekilegri hugsun, hæfileika sem allir búi yfir (Jóhann Björnsson, 2016, bls. 3).Ég sé fyrir mér að nýta heimspekina við kennslu í listsköpun. Heimspekin kennir manni að gefa hlutunum gaum, ígrunda þá, fanga það sem birtist, undrast, upplifa og deila upplifunum sínum. Allt þetta tel ég að eigi heima í myndlistartímunum. Það er svo gagnlegt að staldra við og spyrja sig og aðra spurninga eins og: Hvers vegna kýs ég að tjá mig á þennan hátt? Að hugsa hlutina til enda getur verið mjög gagnlegt, sem og að velta vöngum yfir tilgangi og eðli hlutanna eins og: Til hvers vel ég að hanna þennan hlut? Hvað hef ég hugsað mér að gera við hann? Er ferlið við gerð hlutarins gagnlegt? Get ég þróað þennan hlut áfram og þá hvernig? Er þetta fallegur hlutur? Hvað gerir hluti fallega? Hvernig líður mér þegar ég tjái mig með litum og línum? og svo framvegis. Hlutverk kennara er að kenna nemendum að rannsaka viðfangsefni með opnum huga, og einnig að vera vakandi fyrir því hvernig hægt er að dýpka umræðuna og draga hana eins og vagn inn í spennandi kima og króka til að fá nemendur til að hugsa nýjar hugsanir. Reglur samræðunnarÍ bókinni 68 æfingar í heimspeki er talað um mikilvægi þess að setja samræðusamfélaginu reglur. Þar segir: Reglunum er ætlað að stuðla að ákveðnum gæðum í samræðunum og rannsókninni. Reglurnar geta verið mismargar frá einum hópi til annars allt eftir því hvað leiðbeinandi metur hverju sinni. Nokkrar reglur eru þó mjög mikilvægar: a. Einn talar í einu. Biðja þarf um orðið með handauppréttingu. Nota má „talspýtu“ eða bolta sem gengur á milli þeirra sem tjá sig. Sá sem hefur „talspýtuna“/boltann hverju sinni hefur orðið, aðrir hlusta á meðan.b. Engar óviðeigandi athugasemdir eru leyfðar. Stundum gerist það að þátttakendur fá niðrandi athugasemdir fyrir skoðanir sínar frá öðrum. Slíkt er alveg bannað. Vert er að benda þátttakendum á að oft kemur í ljós að sú skoðun sem virtist í upphafi vera fáránleg reynist eftir nánari skoðun og samræðu vera mjög mikilvæg og langt í frá fáránleg.c. Taka eftir því sem aðrir segja. Þetta má leggja áherslu á með því að spyrja einstaka þátttakendur af og til: „Getur þú endurtekið það sem hann/hún sagði?“d. Þátttakendur vinna saman sem einn hópur. Samræðan er samstarfsverkefni þátttakenda en ekki samkeppni þeirra á milli. Þátttakendur hjálpa hver öðrum við að móta hugsanir sínar og skoðanir. (Jóhann Björnsson, 2014, bls. 5)Hlutverk stjórnanda samræðunnar er mikilvægt og Horster setur stjórnanda sókratískra samræðna eftirtaldar reglur: 1. Haltu aftur af skoðunum þínum, 2. stuðlaðu að gagnkvæmum skilningi þátttakenda, 3. fylgdu rauða þræðinum, 4. stuðlaðu að því að samræðan nái fótfestu í hinu áþreifanlega, 5. stuðlaðu að því að niðurstaða náist, 6. vísaðu á næsta skref í sértekningaferlinu (Róbert, Jack, 2006).Eftirfarandi er gott að hafa í huga:· Vertu vel undirbúinn. Lestu söguna nokkrum sinnum og að minnsta kosti einu sinni upphátt. Finndu tóninn í sögunni og mismunandi raddir fyrir sögupersónur. Einnig er gott að fara yfir spurningar og áhersluþætti.· Sýndu nemendum að þér þyki verkefnið spennandi. Áhugi þinn smitar út frá sér.· Það er mikilvægt að hlusta vel og bregðast við því sem nemendur leggja til málanna. Einnig er æskilegt að hver efnisþáttur sé ræddur til hlítar. Reyndu að fá umræðuna til að dýpka og þróast (Wartenberg, 2009).Að tjá skoðanir sínarÍ verklegum æfingum eins og hönnun, smíði eða myndlist mætti til dæmis hugleiða tilgang verkefnis og hvað það felur í sér. Skynjunin leikur lykilhlutverk í heimspekinni. Til að rannsaka og taka afstöðu til veruleikans þarf maður fyrst að hafa tekið eftir honum, sem krefst þess að maður sé vakandi og virki skynjun og vitsmuni. Í hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla fyrir sjónlistir er lögð rík áhersla á tjáningu skoðana og tilfinninga í sköpun eigin verka með tengingu við eigin reynslu. Einnig eru gerðar þær kröfur að nemendur geti beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls.149). Með hugtakagreiningu reynum við að fanga veruleikann og leita merkingar þeirra hugtaka sem við notum. Ég velti fyrir mér hvernig nemendum gengur að orða þann veruleika sem þeir búa við. Fá þeir tækifæri innan veggja skólans til að orða upplifanir sínar, hvort sem er af efnisheimi, myndheimi eða því sem við upplifum innra með okkur? Ég lít svo á að það sé hlutverk mitt sem kennara að búa til þennan vettvang samræðna þar sem aðferðir heimspekinnar eru hafðar að leiðarljósi. Þegar samræður nemenda eiga sér stað er það hlutverk kennarans að tryggja að reglum samræðusamfélagsins sé fylgt þannig að nemendur geti notið sín. Hlutverk kennarans er að leiða samræður nemenda áfram, til dæmis með spurningum sem hafa það að markmiði að skerpa fókus og dýpka samræðurnar.Þegar Robin Alexander talar um „afl sem í talmálinu býr“ er hann að hugsa um þessi verkfæri sem felast í talmálinu:Talið brúar bilið milli hins fullorðna og barnsins, milli kennarans og nemandans, milli samfélagsins og einstaklingsins, milli þess sem barnið veit og skilur nú þegar og þess sem það á eftir að vita og skilja. Tungumálið miðlar ekki aðeins hugsun, það gefur henni form og tal stuðlar að því að efla vitsmunalega færni einstaklings sem verður þá betur í stakk búinn að læra, hvort heldur er innan skóla eða utan”. (Robin Alexander, 2005, bls. 2)Hafþór Guðjónsson talar um það í pistli sínum Að þróa sína eigin innri orðræðu að hann sé mjög upptekinn af samræðunni sem leið í kennslu. Frá því að hann kynntist hugsmíðahyggju, rétt um 1990, fór hann að líta á nemandann sem þekkingarsmið og að hlutverk hans sem kennara væri fyrst og fremst fólgið í því að hjálpa nemendum að byggja upp þekkingu sína á námsefninu. Þetta kallar auðvitað á samræður, segir hann „enda varð ég „samræðukennari“ upp úr þessu“. Hafþór gaf samt ekki fyrirlestra og aðrar kennsluaðferðir upp á bátinn. Síður en svo. En afstaða hans til náms og nemenda breyttist og markaði gjörðir hans. Fyrirlestrar Hafþórs urðu „samræðufyrirlestrar“ og verklegu tímarnir í efnafræði urðu í ríkari mæli en áður samræðutímar, þar sem hann gekk á milli nemendahópa, forvitinn að kynnast hugarheimi þeirra og heyra hvernig þeir túlkuðu það sem fyrir augu þeirra bar (Hafþór Guðjónsson, 2020).
HeimildirHeimspekivefur Garaðskóla, sótt 2020 af http://www2.gardaskoli.is/heimspeki/Jóhann Björnsson. (2014) Ritstjóri: Aldís Ingvadóttir. 68 æfingar í heimspeki. Námsgagnastofnun Kópavogi, vefútgáfa. Sótt 2020 af vef:https://menntastefna.is/wp-content/uploads/2019/08/68-æfingar-í-heimspeki.pdf Wartenberg T. E. (2009). Big Ideas for little kids: Teaching philosophy through children´s literature. Littlefield Education.