Sagan segir frá líflegri músafjölskyldu sem hefur búið sér til heimili í vegg sem er hlaðinn grjóti. Mýsnar undirbúa veturinn með því að safna korni, berjum, maís og hnetum, allar nema Fredrick sem virðis ekki aðhafast neitt. Þegar mýsnar spyrja hann segist Fredrick vinna, hann safni sólargeislum fyrir kaldan og langan veturinn, hann safni litum af því að veturinn er grár og hann safni orðum vegna þess að vetrardagarnir eru margir og langir „okkur verður orða vant“ segir Fredrick. Það kemur í ljós að Fredrick er skáld og þegar maturinn er uppurinn og veturinn kaldur og grár þá er það Fredrick sem blæs músunum byr undir báða vængi með orðum, sólargeislum og sögum. Og mýsnar skilja að það er hægt að leggja sitt af mörkum á marga vegu, líka með því að safna orðum, litum og sólargeislum. Eftir samræður og hugleiðingar gerum við stutt myndband um Fredrick og mýsnar. Til þess er notað app sem heitir Stop Motion Studio. Búin er til leikmynd úr pappír og leir. Persónur og leikendur eru mótuð í leir. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist færni í að útfæra hugmyndir sínar.
Nemendur læra:
· að móta í leir
· að búa til einfalda leikmynd.
· að nota algeng verkfæri sem tengjast leir
· að taka þátt í heimspekilegum samræðum
· að tjá sig með aðferðum heimspeki
· að tjá sig með aðferðum myndlistar
· að útfæra hugmynd sína frá teikningu eða skissu yfir í þrívítt form
· að útskýra verkin sín fyrir samnemendum og kennurum
· að nota appið Stop Motion Studio
· að búa til stop motion-stuttmynd
Efni samræðna
Ég mun lesa söguna og spyrja spurningar út frá henni. Af því að hópurinn minn er á ólíkum aldri finnst mér mikilvægt að allir skilji söguna og hvað það er sem Fredrick er að fást við, hvað það felur í sér að safna orðum og sólargeislum?
Hvað er vinna
· Er það að skrifa ljóð vinna?
· Hvenær er það sem þú fæst við vinna og hvenær ekki?
· Getur vinna og skemmtun farið saman?
· Er mikilvægt að samfélög eigi skáld?
Eðli samfélaga
· Hvað er samfélag?
· Hvaða samfélagi tilheyrir þú?
· Finnst þér það að tilheyra samfélagi feli í sér að þú verðir að leggja eitthvað af mörkum?
· Hvernig leggja mýsnar sitt af mörkum til samfélagsins?
· Hvað með Fredrick? Er hann að leggja sitt af mörkum til músa-samfélagsins?
Hvað felur það í sé að vinna?
· Finnst þér Fredrick vinna þegar hann safnar sólargeislum?
· Er einhver ákveðin tilfinning sem fylgir því að vinna?
· Getur eitthvað skemmtilegt verið vinna?
· Er vinna alltaf erfið. Hvers vegna/ hvers vegna ekki?
· Getur nefnt eitthvað sem þú gerir sem er vinna og eitthvað sem þú gerir sem er leikur?
· Er hugsun vinna?
Gildi bókmennta og ljóðagerðar
· Hvernig fannst þér ljóðið sem Fredrick orti?
· Hvers vegna yrkja sumir ljóð?
· Er það að vera skáld vinna?
· Þurfum við ljóðlist?
· Er ljóðlist mikilvæg?
· Hvað með sjónvarp? Tónlist?
· Er listin mikilvæg? Sjónlistir, ritlist, tónlist? Getur þú rökstutt svar þitt?
· Hvað þarft þú til að lifa af langan dimman vetur? Nefndu fjóra hluti til að setja í tösku?
Fyrir hvern
þetta námsefni er hugsað fyrir nemendur í grunnskóla í 3. - 6. bekk
Kennslustundir
6x40 mínútur
Kennslu- og námshættir
Ég byrja tímann á að kynna mig fyrir nemendum og kynnast þeim örlítið. Legg nöfnin þeirra á minnið. Því næst verð ég með stutta innlögn um verkefnið og þau efni og þær aðferðir sem við komum til með að nota. Kennslan byggist að mestu á samræðum, sýnikennslu og einstaklingsmiðaðri kennslu eins og við á miða við aðstæður. Ég legg áherslu á vinnugleði, að nemendur læri að dvelja í andartakinu og njóta samræðna og vinnunnar því að sköpunarferlið skiptir ekki síður máli en afrakstur verksins. Ég reyni að undirbúa kennslustundina þannig að allt efni sem þarf í verkefnið sé klárt þegar nemendur mæta. Þegar 5-10 mínútur eru eftir af kennslustund fá nemendur tækifæri til að tjá sig um verkin sín og spyrja spurninga ef eitthvað er óljóst.
Hæfniviðmið
Hluti af því að undirbúa kennslu er að ákveða og leiða hugann að því hvernig við hyggjumst meta námið. Hvernig leggjum við mat á hvernig til hefur tekist og hvort nemandi hefur náð tökum á þeim hæfniviðmiðum sem við lögðum upp með. Við teljum mikilvægt að hæfniviðmið séu skýr og að tilgangur kennslunnar og námsins sé öllum ljós.
Að nemendur geti:
· Tekið þátt í heimspekilegum samræðum og Þekki reglur samræðnanna
· Unnið með mismunandi efni eins og leir
· Útfært tvívítt verk í þrívítt form
· Sýnt frumkvæði og þor, gert tilraunir í verkefninu
· Valið og beitt viðeigandi aðferðum og tækni við leikmynd
· Gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefninu eins og að þekkja muninn á tvívíðu og þrívíðu formi, þekki hugtök eins og: heimspeki, rökstyðja, eiginleikar, áferð
· Fjallað um eigin verk og verk annara í virku samtali við aðra nemendur
Kennsluaðferðir
Innlögn, sýnikennsla og samræður þar sem verkefnið er útskýrt fyrir nemendum Að öðru leyti er kennslan einstaklingsmiðuð og aðlöguð aðstæðum.
Námsgögn
Leir, áhöld, akríllitir, penslar, pappír, ritföng og blöð. Sími eða Ipad, appið Stop Motion Studio
Námsmat
Við námsmatið munum við safna markvisst upplýsingum um frammistöðu nemenda meðan á náminu stendur. Eftir verkefnið er gagnlegt að hver nemandi geri sjálfsmat og skráir hjá sér hvað hann lærði af verkefninu. Að öðru leyti munum við meta verkefni nemenda út frá virkni í tíma, vinnubrögðum og færni. (Sjá hæfniviðmið hér fyrir ofan). Við endurgjöf styðjumst við auk þess við eftirfarandi:
(A) Sýnt frumkvæði og þor af öryggi, gert markvissar tilraunir í verkefninu og valið og beitt mjög vel viðeigandi aðferðum og tækni.
(B) Sýnt allnokkuð frumkvæði og þor, gert þónokkrar tilraunir í verkefninu og valið og beitt nokkuð vel viðeigandi aðferðum og tækni.
(C) Sýnir lítið frumkvæði og þor, gerir sjaldan tilraunir í verkefninu og valið og beitt sjaldan viðeigandi aðferðum og tækni.
Sjálfsmat nemenda
Hvernig fannst þér verkefnið ganga?
· Mjög vel
· Vel
· Sæmilega
· Ekki vel
Hvernig stóð ég mig í heimspekilegum samræðum, að taka þátt og rökstyðja mál mitt?
Hvernig tókst mér til við að tileinka mér hugtök sem tengjast heimspekilegum samræðum?
Hvernig stóð ég mig í að vinna sjálfstætt?
Lagði ég mig fram í verkefninu?
Hvernig stóð ég mig í að tala um og rökstyðja verkin mín?
Fyrirkomulag kennslu
Fyrsta kennslustund, 2x40 mínútur
Ég byrja tímann á að kynna mig fyrir nemendum og kynnast þeim örlítið. Legg nöfnin þeirra á minnið. Því næst verðum ég með stutta innlögn um verkefnið og þau efni og þær aðferðir sem við komum til með að nota. Kennslan byggist að mestu á samræðum, sýnikennslu og einstaklingsmiðaðri kennslu eins og við á miða við aðstæður. Ég legg áherslu á vinnugleði, að nemendur læri að dvelja í andartakinu og njóta vinnunnar og að taka þátt í samræðum því að sköpunarferlið skiptir ekki síður máli en afrakstur verkefnis. Ég reyni að undirbúa kennslustundina þannig að allt efni sem þarf í verkefnið sé klárt þegar nemendur mæta.
Um reglur heimspekilegra samræðna
Í bókinni “68 æfingar í heimspeki” er talað um mikilvægi þess að setja samræðusamfélaginu reglur. Þar segir: Reglunum er ætlað að stuðla að ákveðnum gæðum í samræðunum og rannsókninni Reglurnar geta verið mismargar frá einum hópi til annars allt eftir því hvað leiðbeinandi metur hverju sinni. Nokkrar reglur eru þó mjög mikilvægar:
a Einn talar í einu Biðja þarf um orðið með handauppréttingu. Nota má „talspýtu“ eða bolta sem gengur á milli þeirra sem tjá sig. Sá sem hefur „talspýtuna“ / boltann hverju sinni hefur orðið, aðrir hlusta á meðan
b Engar óviðeigandi athugasemdir eru leyfðar. Stundum gerist það að þátttakendur fá niðrandi athugasemdir fyrir skoðanir sínar frá öðrum. Slíkt er alveg bannað. Vert er að benda þátttakendum á að oft kemur í ljós að sú skoðun sem virtist í upphafi vera fáránleg reynist eftir nánari skoðun og samræðu vera mjög mikilvæg og langt í frá fáránleg
c Taka eftir því sem aðrir segja. Þetta má leggja áherslu á með því að spyrja einstaka þátttakendur af og til: „Getur þú endurtekið það sem hann / hún sagði?“
d Þátttakendur vinna saman sem einn hópur. Samræðan er samstarfsverkefni þátttakenda en ekki samkeppni þeirra á milli. Þátttakendur hjálpa hver öðrum við að móta hugsanir sínar og skoðanir. (Jónhann Björnsson, 2014, bls.5)
Hlutverk mitt
Hlutverk stjórnanda samræðunnar er mikilvægt og Horster setur stjórnanda sókratíska samræðna eftirtaldar reglur: 1. haltu aftur af skoðunum þínum, 2. Stuðlaðu að gagnkvæmum skilningi þátttakenda, 3. Fylgdu rauða þræðinum, 4. Stuðlaðu að því að samræðan nái fótfestu í hinu áþreifanlega, 5. Stuðlaðu að því að niðurstaða náist, 6. Vísaðu á næsta skref í sértekningaferlinu (Jack Róbert, 2006).
Rökstuðningur
Verkefnið um Fredrick kemur inn á nokkra þætti í grunnþáttum menntunar svo sem læsi, heilbrigði, velferð og sköpun. Ég tel það valdeflandi að fá nemendur til að hugleiða söguna um Fredrick og taka þátt í samræðum um samfélög og hvað það felur í sér að tilheyra samfélagi. Nemendur verða meðvitaðri um sín eigin viðhorf og læra að rökstyðja þau auk þess fá þeir þjálfun í að hlusta á viðhorf og skoðanir annara.
Læsi
Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, bls.19). Í þessu verkefni læra nemendur að lesa í mismunandi efnivið auk þess sem verkefnið kallar á stafrænt læsi. Einnig þurfa nemendur að skoða sig sjálf og félaga sína í gegnum heimspekilegar samræður. Nemendur læra að búa til stuttmynd með því að nota appið “Stop Motion Studio” Nemendur læra um tvívítt- og þrívítt form og að vinna leikmynd.
Sköpun
Hvenær eru samræður skapandi? Hvenær ert þú skapandi? Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla kallar grunnþátturinn sköpun á fjölbreyttar kennsluaðferðir og vinnubrögð. Sköpunarþrá á sér rætur í meðfæddri forvitni, athafnaþrá og stuðlar að frumkvæði einstaklingsins. Sköpunargleði leiðir til námsáhuga þegar börn og ungmenni skynja merkingu viðfangsefnanna og gildi þeirra. Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2011, bls.19)
Heilbrigði og velferð
Ég hef tröllatrú á samræðum og tel að með samræðum megi leysa vandamál og koma í veg fyrir vanlíðan af margvíslegum toga. Auk þess færa samræður okkur gleði og sýn í hugarheim annara. Ég trúi því að samræður geri okkur að betri manneskjum og að það feli í sér heilun að deila reynslu sinni og líðan með öðrum. Í aðalnámskrá grunnskóla segir: Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2011, bls.19)
Heimildir
Jack Róbert. (2006). Hversdagsheimspeki, Upphaf og endurvakning.Ritstjóri : Gunnar Harðarson. Ritröð 9. Reykjavík: Háskólaútgáfan, Heimspekistofnun.
Jóhann Björnsson. (2014). Ritstjóri: Aldís Ingvadóttir. 68 æfingar í heimspeki. Námsgagnastofnun Kópavogi, vefútgáfa. Sótt 2020 af vef:
https://menntastefna.is/wp-content/uploads/2019/08/68-æfingar-í-heimspeki.pdf
Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2011.) Aðalnámskrá grunnskóla. Reykjavík: