Lýsing á verkefni
Í þessu verkefni læra nemendur að móta úr álpappír og pappamassa og nota app sem heitir Stop Motion Studio til að búa til hreyfimyndir og sögur. Verkefnið byggir á grundvallaratriðum sjónlista þar sem unnið er með tvívítt og þrívítt form, liti, áferð, ljós og skugga. Nemendur móta atburðarás eða sögu, velja sér persónur til að móta og fylgihluti "props". Sögupersónur eru síðan mótað í pappamassa. Lögð áhersla á að nemandinn öðlist færni í að útfæra hugmyndir sínar. Nemendur læra að móta í leir og forma með álpappír og pappamassa. Nemendur læra að nota algeng verkfæri sem tengjast leir auk þess sem þeir læra grundvallaratriði í mótun hvort sem það er að móta í leir eða pappamassa. Í þessu verkefni er lögð áhersla á sköpun og flæði og að nemendur læri að tjá sig með aðferðum lista. Nemendur læri að útfæra hugmynd sína frá teikningu eða skissu yfir í þrívítt form auk þess fá þeir þjálfun í að útskýra verkin sín fyrir samnemendum og kennurum. Nemendur fá einnig þjálfun í að nota appið Stop Motion studio og búa til stuttar stop motion klippur.
Fyrir hvern
þetta námsefni er hugsað fyrir nemendur á öllum aldri
Kennslustundir
6x40 mínútur
Kennslu- og námshættir
Við byrjum tímann á að kynna okkur fyrir nemendum og kynnast þeim örlítið. Leggjum nöfnin þeirra á minnið. Því næst verðum við með stutta innlögn um verkefnið og þau efni og þær aðferðir sem við hyggjumst nota. Kennslan byggist að mestu á sýnikennslu og einstaklingsmiðaðri kennslu eins og við á miða við aðstæður. Við leggjum áherslu á rétt vinnubrögð við vinnu í leir eða pappamassa og að nemendur læri að dvelja í andartakinu og njóta vinnunnar því að sköpunarferlið skiptir ekki síður máli en afrakstur verksins. Við reynum að undirbúa kennslustundina þannig að allt efni sem þarf í verkefnið sé klárt þegar nemendur mæta. Þegar 5-10 mínútur eru eftir af kennslustund fá nemendur tækifæri til að tjá sig um verkin sín og spyrja spurninga ef eitthvað er óljóst.
Hæfniviðmið
Hluti af því að undirbúa kennslu er að ákveða og leiða hugann að því hvernig við hyggjumst meta námið. Hvernig leggjum við mat á hvernig til hefur tekist og hvort nemandi hefur náð tökum á þeim hæfniviðmiðum sem við lögðum upp með. Við teljum mikilvægt að hæfniviðmið séu skýr og að tilgangur kennslunnar og námsins sé öllum ljós.
Að nemendur geti:
Unnið með mismunandi efni eins og pappamassa og leir
Unnið með mismunandi liti og áferð
Útfært tvívítt verk í þrívítt form, frá skissu yfir í þrívítt form
Sýnt frumkvæði og þor, gert tilraunir í verkefninu
Valið og beitt viðeigandi aðferðum og tækni,
Búið til stutt myndband með Stop Motion Studio
Gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefninu eins og að þekkja muninn á tvívíðu og þrívíðu formi, þekki hugtök eins og: eiginleikar, áferð, undirtónn og yfirborð, hreyfimynd
Sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði
Fjallað um eigin verk og verk annara í virku samtali við aðra nemendur
Kennsluaðferðir
Innlögn og sýnikennsla þar sem verkefnið er útskýrt fyrir nemendum . Að öðru leyti er kennslan einstaklingsmiðuð og aðlöguð aðstæðum.
Námsgögn
Leir, áhöld, álpappír, veggfóðurslím, penslar, akríllitir, penslar, pappír, ritföng og dagblöð
Námsmat
Við námsmatið er upplýsingum markvisst safnað um frammistöðu nemenda meðan á náminu stendur. Eftir verkefnið er gagnlegt að hver nemandi geri sjálfsmat og skráir hjá sér hvað hann lærði af verkefninu. Að öðru leyti munum við meta verkefni nemenda út frá virkni í tíma, vinnubrögðum og færni. (Sjá hæfniviðmið hér fyrir ofan). Við endurgjöf styðjumst við auk þess við eftirfarandi:
(A) Sýnt frumkvæði og þor af öryggi, gert markvissar tilraunir í verkefninu og valið og beitt mjög vel viðeigandi aðferðum og tækni.
(B) Sýnt allnokkuð frumkvæði og þor, gert þónokkrar tilraunir í verkefninu og valið og beitt nokkuð vel viðeigandi aðferðum og tækni.
(C) Sýnir lítið frumkvæði og þor, gerir sjaldan tilraunir í verkefninu og valið og beitt sjaldan viðeigandi aðferðum og tækni.
viðeigandi aðferðum og tækni.
Sjálfsmat nemenda
Hvernig fannst þér verkefnið ganga? Útskýrðu hvers vegna.
· Mjög vel
· Vel
· Sæmilega
· Ekki vel