Grunnþættir menntunar
Grunnþættir menntunar snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 14). Námsverkefnin snerta á nokkrum grunnþáttum.
Læsi:
Í námsefninu læra nemendur að lesa í náttúruna og veita henni athygli. Meginmarkmið læsi er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls.19).
Sköpun:
Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til eða gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun er að sjá fyrir það óorðna og framkvæma það. Sköpun byggist á forvitni, áskorun, spennu og leit. Glíman við viðfangsefnið og það að finna lausn getur verið umbun sköpunarinnar. Sköpun brýtur hefðbundin mynstur, reglur og kerfi og veitir nýja sýn á fyrirbæri og viðteknar hugmyndir. Sköpun byggist á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 24).
Sjálfbærni:
Umhverfið og þar með náttúran umlykja allt mannlegt samfélag. Sjálfbær þróun getur ekki átt sér stað nema innan þeirra takmarka sem vistkerfi jarðar setja okkur. Því er skilningur á þeim takmörkum, ásamt ferlum, lögmálum og hringrásum í náttúrunni, mikilvægur grundvöllur þess að okkur takist að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þannig þurfa nemendur að þekkja, skilja og virða náttúruna, bæði vegna sjálfgildis hennar og þeirrar þjónustu sem hún innir af hendi við mannfólkið. (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 20)