Heimspekilegar samræður í kennslu, myndlistaverkefni og stop motion
Þetta verkefni er hugsað fyrir nemendur í grunnskóla. Byrja er á því að lesa bókina Fredrick eftir Leo Lionni fyrir nemendur. Sagan segir frá líflegri músafjölskyldu sem hefur búið sér til heimili í vegg sem er hlaðinn grjóti. Mýsnar undirbúa veturinn með því að safna korni, berjum, maís og hnetum, allar nema Fredrick sem virðis ekki aðhafast neitt. Þegar mýsnar spyrja hann segist Fredrick vinna, hann safni sólargeislum fyrir kaldan og langan veturinn, hann safni litum af því að veturinn er grár og hann safni orðum vegna þess að vetrardagarnir eru margir og langir „okkur verður orða vant“ segir Fredrick. Það kemur í ljós að Fredrick er skáld og þegar maturinn er uppurinn og veturinn kaldur og grár þá er það Fredrick sem blæs músunum byr undir báða vængi með orðum, sólargeislum og sögum. Og mýsnar skilja að það er hægt að leggja sitt af mörkum á marga vegu, líka með því að safna orðum, litum og sólargeislum.
Námsgögn:
Leir, áhöld, akríllitir, penslar, pappír, ritföng og blöð. Sími eða Ipad, appið Stop Motion Studio og Sagan um Fredrick eftir LeoLionni.
Leikmyndin er búin til úr pappa. Tréð og steinarnir eru úr pappamassa.
Mýsnar eru mótaðar með leir.
Snjórinn er úr grófu salti. Maisinn og hneturnar eru úr leir en stráin eru alvöru, teppin eru úr gömlum sokkum.
Nemendur læra:
· að móta í leir
· að búa til einfalda leikmynd.
· að nota algeng verkfæri sem tengjast leir
· að taka þátt í heimspekilegum samræðum
· að tjá sig með aðferðum heimspeki
· að tjá sig með aðferðum myndlistar
· að útfæra hugmynd sína frá teikningu eða skissu yfir í þrívítt form
· að útskýra verkin sín fyrir samnemendum og kennurum
· að nota appið Stop Motion Studio
· að búa til stop motion-stuttmynd
þessi stutta stopmotion-mynd er búin til úr 450 römmum. Við tökur er mikilvægt að halda símanum eða Ipad stöðugum.